Icetec sem er félag í eigu Inga Guðjónssonar fyrrverandi framkvæmdastjóra Lyfju, hefur keypt 61% hlut Lyfju í Litís ehf, en það félag rekur keðju apóteka í Litháen, undir merkjum Farma. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Eftir kaupin á Ingi 95% eignarhlut í Litís en Lyfja heldur eftir 5% hlut. Stefna félögin að því að eiga með sér samstarf um mögulegan innflutning á lyfjum og fleiru til hagræðingar fyrir báða aðila.

Ingi Guðjónsson er annar stofnanda Lyfju og var framkvæmdastjóri félagsins þar til í maí á síðastliðnu ári. Hann er einn af stofnendum Litís og stjórnarformaður þess frá 2004.

?Með þessum kaupum hyggst ég einbeita mér að frekari uppbyggingu apóteka í A-Evrópu og tel mikil tækifæri fólgin í því að taka enn meiri þátt í þeirri uppsveiflu sem nú á sér stað á þessu markaðssvæði. Í dag rekur Litís 47 apótek í Litháen sem flest eru staðsett í Vilnius og Kaunas, tveimur stærstu borgum landsins," segir Ingi.

"Á síðastliðnu ári gekk rekstur þeirra mjög vel enda mikill uppgangur í allri smásöluverslun í Litháen. Undirbúningur er nú hafinn að því hjá Litís að hefja apóteksstarfsemi í öðru landi A-Evrópu. Hugmyndin er að yfirfæra á þann markað enn frekar þá þekkingu og reynslu sem ég og stjórnendur Litís höfum öðlast á rekstri apóteka,? segir Ingi.

?Lyfja eignaðist meirihluta í Litís árið 2004. Ingi Guðjónsson hefur síðustu ár m.a. sem stjórnarformaður Litís leitt þá uppbyggingu sem átt hefur séð stað í Litháen og skoðun á öðrum mörkuðum. Það varð því að samkomulagi á milli Lyfju og Inga að hann keypti meirihlutann af Lyfju? segir Sigurbjörn Gunnarsson, framkvæmdastjóri Lyfju.

?Lyfja mun einbeita sér að rekstri verslana sinna hér á landi sem reknar eru undir merkjum Lyfju, Apóteksins og Heilsuhússins auk heildverslunarinnar Heilsu ehf. Við munum skoða önnur tækifæri sem bjóðast hér á landi sem erlendis til að efla fyrirtækið ennfrekar. Við væntum þess einnig að eiga áfram gott samstarf við Inga og Litís? segir Sigurbjörn.