Ingi Rafn Sigurðsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Listahátíðar í Reykjavík til fjögurra ára frá og með 1. febrúar næstkomandi. Hann tekur við af Auði Rán Þorgeirsdóttur.

Fram kemur í tilkynningu að Ingi Rafn hefur starfað sem framkvæmdastjóri Karolina Fund frá árinu 2012 þar sem hann hefur staðið að fjármögnun fjölda skapandi verkefna og listviðburða og er einn stofnenda sjóðsins. Hann hefur á undanförnum árum jafnframt starfað við ráðgjöf um fjármögnun lista- og frumkvöðlaverkefna og tekið þátt í ráðstefnum fyrir Íslands hönd um fjármögnun verkefna innan skapandi iðnaðar á ráðstefnuröð á vegum Evrópusambandsins og Norrænu ráðherranefndarinnar. Áður starfaði hann m.a. um árabil sem gæða- og fræðslustjóri í söludeild Kaupþings og um skeið fyrir plötuútgáfuna Thule Music. Hann stofnaði fyrirtækið Reykjavík Labs ehf sem sérhæfir sig í útflutningi og vefsölu á íslenskri hönnun.

Ingi hefur lokið diplóma gráðu frá viðskiptadeild Háskóla Íslands.