Reykjavíkurborg hefur ráðið Inga B. Poulsen í stöðu umboðsmanns borgarbúa. Í tilkynningu kemur fram að Ingi er með meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands og hefur stundað framhaldsnám í umhverfis- og auðlindarétti. Hann fékk héraðsdómslögmannsréttindi árið 2008 og starfaði um tæplega fjögurra ára skeið hjá embætti borgarlögmanns við almenn málflutningsstörf, lögfræðilega ráðgjöf innan borgarkerfisins og málflutning á kærustigi innan stjórnsýslunnar. Síðastliðin ár hefur Ingi starfað sem meðeigandi á lögmannsstofu.

Helstu verkefni umboðsmanns borgarbúa verða að leiðbeina íbúum í samskiptum þeirra við embætti og stofnanir borgarinnar og veita þeim ráðgjöf um rétt sinn. Markmiðið er að opna gátt, tryggja leið og aðkomu borgarbúa að stjórnsýslunni. Þá á hann að leiðbeina borgarbúum og fyrirtækjum sem telja á sér brotið við meðferð mála hjá Reykjavíkurborg auk þess að sinna almennum kvörtunum og ábendingum varðandi þjónustu.

Önnur verkefni eru m.a. að veita ráðgjöf um endurupptökuheimildir og/eða kæruleiðir vegna þeirra mála sem til hans koma, að hafa eftirlit með stjórnsýslunni í umboði forsætisnefndar og heimild til rannsóknar að eigin frumkvæði. Þá á hann að veita mannréttindaskrifstofu lagalega aðstoð vegna erinda borgarbúa sem snúa að mismunun.