365 sem er að mestu í eigu Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur keypti í gær átján milljón hluti í Skeljungi. Frá þessu er greint í tilkynningu til Kauphallarinnar. Viðskiptin voru á yfirtökugenginu sem er 8,315 krónur fyrir hvern hlut og hljóðuðu námu kaupin því tæplega 150 milljónum króna. Miðað við núverandi markaðsverð myndu viðskiptin nema 156 milljónum en 365 átti fyrir 93 milljón hluti í Skeljungi.

Í gær bárust þau tíðindi að Ingibjörg hefði selt hlutabréf í fasteignaþróunarfélaginu Kaldalón fyrir tæplega 150 milljónir króna í gegnum félag sitt 24 Development Holding ehf., sem er dótturfélag 365. Þann 9. nóvember síðastliðinn boðuðu þrjú fyrirtæki; 365, RES 9 og Loran yfirtökutilboð í allt hlutafé Skeljungs. Félögin þrjú eiga samtals ríflega 36% hlut í Skeljungi og munu leggja bréfin inn í félagið Streng ehf.

Alls á 365 nú um 111 milljón hluti í Skeljungi eða um 5,6% í félaginu. Fjöldi atkvæða sem 365 getur eignast ef framvirkir samningar eru nýttir nema tæplega 123 milljónum sem gerir 6,2% heildaratkvæða. Samtals gæti 365 því eignast 234 milljón hluti í Skeljungi sem er 11,8% hlutur.

Jón Ásgeir Jóhannesson, stjórnarformaður Skeljungs, er eiginmaður Ingibjargar Stefaníu Pálmadóttur og varamaður í stjórn 365.

Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum um söluverð bréfanna sem var á yfirtökugenginu 8,315 krónur á hlut.