Fjárfestingarfélagið Gaumur keypti hlutabréf Ingibjargar Pálmadóttur í Baugi og 1998 ehf, móðurfélagi Haga-samstæðunnar, fyrir átta milljarða króna króna síðustu mánuðina fyrir hrun. Eigandi Gaums var Jón Ásgeir Jóhannesson, maður Ingibjargar, og tengdafjölskylda hennar.

Bréfin í Baugi keypti Gaumur af Ingibjörgu fyrir þrjá milljarða í júní árið 2008. Hún átti sömuleiðis hlutabréf í 1998 ehf í gegnum einkahlutafélagið ISP sem Gaumur keypti fyrir 4,9 milljarða króna.

Í DV í dag er fjallað um viðskiptin og bent á að ISP hafi verið komið í alvarleg vanskil við Kaupþing í byrjun árs 2008 og var það í vanskilum eftir hrunið um haustið. Engu að síður lækkuðu skuldir félagsins verulega í viðskiptafléttunni sem nefnd var að ofan. Þær fóru úr 7,4 milljörðum króna á vordögum í 2,4 milljarða eftir viðskiptin. Bent er á það í umfjöllun DV að þrátt fyrir slæma stöðu ISP hafi Ingibjörg greitt sér samtals 350 milljónir króna í arð úr ISP á árunum 2006 og 2007 og ráðgert að taka 300 milljónir út úr því arið 2008.

Greiðsla Gaums til Ingibjargar var hluti af 30 milljarða króna láni sem félagið 1998 ehf fékk hjá Kaupþingi. Þar af notaði Baugur 15 milljarða til að greiða niður lán við Kaupþing og Glitni og afganginn til að kaupa hlutabréf í Baugi af stjórnendum Baugs og tengdum aðilum.

Skiptastjóri þrotabús Baugs höfðaði skaðabótamál gegn Jóni Ásgeiri í fyrra og krafði hann um endurgreiðslu á 15 milljörðum króna vegna kaupa á hlutabréfum í Baugi.

Ingibjörg Pálmadóttir er aðaleigandi 365 miðla. Undir félagið heyra m.a. Fréttablaðið og Stöð 2 auk fjölda útvarpsstöðva.