Hlutafé félagsins IP Studium Reykjavík var aukið í júlí úr 321,5 milljónum króna í 460 milljónir. Fram kemur í tilkynningu til Fyrirtækjaskrár að hlutafjáraukningin, sem þessu samkvæmt hljóðar upp á 138,5 milljónir króna, hafi verið verið að fullu greidd í peningum.

IP Studium Reykjavik á 12,5% hlut í 365 miðlum sem m.a. á Fréttablaðið, Stöð 2, Vísi.is og Bylgjuna. Félagið á sömuleiðis 25,8 prósent hlut í 365 miðlum í gegnum félagið ML 102 ehf.

Fjallað er um málið að hluta í Markaðnum, viðskiptablaði Fréttablaðsins í dag.

Býr í Bretlandi en með félögin skráð í Lúxemborg

IP Studum Reykjavík hefur ekki skilað ársreikningi frá árinu 2008 og því er erfitt að átta sig á fjárhagslegri stöðu félagsins í dag að öðru leyti en því sem fram kemur í tilkynningu til Fyrirtækjaskrár. Samkvæmt ársreikningi IP Studium Reykjavik fyrir árið 2008 var félagið þá að fullu í eigu Edmound Holding sem skráð er í Lúxemborg.

Ingibjörg á samtals 90% í A-hlutafé 365 miðla og 100% af B-hlutafé félagsins í gegnum þrjú félög. Þriðja félag hennar sem skráður er eigandi að fjölmiðlafyrirtækinu er Moon Capital sem skráð er í Lúxemborg. Sjálf er Ingibjörg skráð með lögheimili í Bretlandi.

Heildarhlutafé 365 miðla nemur rétt rúmum 2,9 milljörðum króna. Þar af eiga félög Ingibjargar tæpa 2,7 milljarða króna.

Árið 2008 var IP Studium Reykjavík skráður eigandi að rekstrarfélagið 101 Hótel. IP Studium Reykjavík var þá skrifað fyrir fjórum fasteignum, tveimur við Hverfisgötu, einni við Laugaveg og annarri við Traðarkotssund. Rifjað er upp í Markaðnum, að síðan þá hafa allar fasteignir verið seldar úr félaginu. Virði eigna IP Studium á þessum tíma nam samkvæmt ársreikningi tæpum 690,8 milljónum króna.