Á dögunum færði Ingibjörg R. Magnúsdóttir Háskóla Íslands (HÍ) afar rausnarlega gjöf er hún bætti 1.750.000 krónum í sjóð sem starfar í hennar nafni við Rannsóknarstofnun í hjúkrunarfræði. Þetta rausnarlega framlag Ingibjargar kemur í tilefni af eins árs afmæli sjóðsins og 85 ára afmæli hennar.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá HÍ.

Þar kemur fram að markmið sjóðs Ingibjargar R. Magnúsdóttur er að efla rannsóknir í hjúkrunarfræði og ljósmóðurfræði. Sjóðurinn mun veita styrki til rannsóknaverkefna hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra í doktorsnámi, sem falla að markmiði sjóðsins.

Stofnfé sjóðsins er samtals 5.000.000 krónur og samanstendur af gjafafé frá Ingibjörgu R. Magnúsdóttur, framlagi Rannsóknastofnunar í hjúkrunarfræði, framlagi frá Glitni, framlagi frá Ljósmæðrafélagi Íslands, framlagi frá Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, gjafafé frá Magnúsi Friðriki Guðrúnarsyni og af gjafafé í tilefni doktorsprófs Sigrúnar Gunnarsdóttur hjúkrunarfræðings.

Ingibjörg R. Magnúsdóttir hjúkrunarfræðingur er fyrrverandi námsbrautarstjóri námsbrautar í hjúkrunarfræði Háskóla Íslands og skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu.

Ingibjörg hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar hjúkrunarmenntunar á Íslandi. Hún var ein þeirra sem stóð að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 1973.