Ingibjörg Sólrún Gísladóttir formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra segir að meirihlutaskipti í borginni muni engin áhrif hafa á ríkisstjórnarsamstarfið. "Við erum í okkar samstarfi samkvæmt  okkar samkomulagi að vinna verk sem eru mjög mikilvæg. Það má ekki verða nein uppstytta í því."

Þetta kom fram í samtali við blaðamann Viðskiptablaðsins rétt í þessu, fyrir blaðamannafund sem nú stendur yfir og boðað var til eftir ríkisstjórnarfund í morgun.

Innt eftir því hvernig henni lítist á nýjan meirihluta í borginni svarar hún: "Mér líst illa á hann. Ég tel að þetta hafi verið mikið óheillaspor sem þarna var stigið í gær fyrir ekki síst borgarbúa vegna þess að ég tel að þessi  meirihluti sé óstarfhæfur."

Spurð hvort breytingarnar í borginni veiki Samfylkinguna svarar hún: "Nei, þetta hefur engin áhrif á Samfylkinguna í sjálfu sér. Þeir sem klúðruðu fyrri meirihluta voru sjálfstæðismenn í borginni og það eru sjálfstæðismenn í borginni sem ákveða að mynda þennan óstarfhæfa meirihluta. Þeir eiga völina og kvölina."