Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra stóð fyrir „diplómatískri árás“ á bresku ríkisstjórnina þegar hún sendi breskum þingmönnum beiðni um að aðstoð við að betrumbæta samband ríkjanna tveggja, Íslands og Bretlands.

Þetta kemur fram á vef breska blaðsins The Independent en blaðið segist hafa bréf Ingibjargar Sólrúnar undir höndum.

Í bréfinu fordæmir Ingibjörg Sólrún bresku ríkisstjórnina fyrir að hafa nýtt ákvæði hryðjuverkalaga gegn íslenskum fyrirtækjum auk þess sem hún mótmælir því að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hefðu orsakað hrun (e. devastation) á Íslandi eins og ráðherrar bresku ríkisstjórnarinnar höfðu sjálfir komist að orði.

Þá kemur fram í frétt The Independent að samskiptin milli ríkjanna séu stirð um þessar mundir. Þannig hafi Geir H. Haarde, forsætisráðherra hótað því að kæra bresku ríkisstjórnina fyrir beitingu hryðjuverkalaga auk þess sem Kaupþing undirbúi einnig mál á hendur yfirvöldum.

Þá segir blaðið að Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands hefði sagt viðbrögð íslensku ríkisstjórnarinnar „algjörlega óviðunandi“ en fulltrúar beggja ríkja hefðu síðan þá reynt að miðla málum.

Bréf Ingibjargar Sólrúnar staðfesti þó gjánna milli ríkjanna, segir blaðið og bætir því við að með bréfinu hafi Ingibjörg Sólrún vikið frá diplómatískri hefð.

Í bréfinu segir Ingibjörg Sólrún að reynt sé eftir fremsta magni að koma á sátt við bresk yfirvöld. Hins vegar séu íslensku stjórnvöld hissa á aðgerðum Breta.

„Það er mjög erfitt fyrir Íslendinga að skilja hvernig hægt er að beita hryðjuverkalögum gegn bandamanni og vingjarnlegum nágranna. Það nær ekki nokkurri átt að sjá íslenskt fyrirtæki á lista með Al Kaída og Talibönum á vef fjármálaráðuneytisins,“ segir Ingibjörg Sólrún í bréfi sínu.

Í frétt The Independent kemur fram að Austin Mitchell, formaður nefndar allra flokka um samskipti Íslands og Bretlands og samflokksmaður Gordon Brown, hefur þrýst á David Miliband, utanríkisráðherra um að finna lausn á deilunni.

Hann segir að í stað þess að hjálpa til hefðu bresk stjórnvöld beitt fautaskap og aukið vandamálið.

Sjá frétt The Independent.