„Den tid den sorg," svarar Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, þegar hún er spurð hvað verði um stjórnarsamstarfið hafni sjálfstæðismenn á landsfundi í janúar nk. aðild að Evrópusambandinu.

Ingibjörg Sólrún vísar því aðspurð á bug að Samfylkingin sé á þrýsta á sjálfstæðismenn að gera upp hug sinn varðandi ESB.

Í Viðskiptablaðinu í dag er fjallað um þá umræðu sem á sér stað innan flokkanna um ESB. Þar er greint frá því að Vinstri græn íhugi að mælast til þess að aðildarumsókn verði borin undir þjóðaratkvæði. Jafnvel er talað um tvöfalda þjóðaðaratkvæðagreiðslu.

Evrópusambandsmál og efnahagsmál verða til  umræðu á flokksráðsfundi VG um helgina.

Óttast ekki klofning í Sjálfstæðisflokknum

Evrópunefnd Sjálfstæðisflokksins er að skipuleggja sitt starf en að Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði þegar blaðamaður Viðskiptablaðsins spurði út í þessi mál á blaðamannafundi í vikunni, að hann óttaðist ekki klofning í Sjálfstæðisflokknum vegna ESB.

„Við höfum ákveðið að taka þetta mál fyrir á næsta landsfundi til þess að allar raddir geti fengið útrás og [til þess að] menn geti látið til sín taka hvort sem þeir eru með eða á móti."

Geir bætti því við að hann væri sannfærður um að lausn myndi nást innan flokksins sem allir gætu sætt sig við.

Spurður út í þau ummæli Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, að hinn þögli meirihluti Sjálfstæðisflokksins væri á móti Evrópusambandsaðild, svaraði Geir m.a.: „Ég veit ekkert frekar en aðrir hvað hinn þögli meirihluti segir."

Nánar í Viðskiptablaðinu í dag.