Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, mun í dag eiga fund með aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, í höfuðstöðvum samtakanna í New York. Réttur áratugur er liðinn frá því að utanríkisráðherra landsins átti síðast fund með aðalritara SÞ.

Á fundinum munu þau Ingibjörg Sólrún og Ban Ki-Moon ræða jafnréttismál og mikilvægi kynjajafnréttis sem forsendu árangurs í brýnustu verkefnum alþjóðasamfélagsins er varða frið, öryggi og loftslagsbreytingar. Ráðherra situr þessa dagana árlegan fund Kvennanefndar SÞ en í gær kynnti Ban Ki-moon stórtækustu aðgerðaráætlun gegn kynbundnu ofbeldi sem sett hefur verið fram hjá Sameinuðu þjóðunum.

Fjármögnun jafnréttisbaráttu

Á fundi kvennanefndar SÞ í gær var aðalfundarefnið fjármögnun jafnréttisbaráttunnar. Fjörutíu og fimm ríki eiga sæti í nefndinni hverju sinni og lauk kjörtímabili Íslands, sem átt hefur sæti í henni síðastliðin fjögur ár, með þessum fundi. Í stað Íslendinga koma fulltrúar Svía. Um 30 manns eru í íslensku sendinefndinni.

Á ráðherrafundi kvennanefndarinnar í gær lagði Ingibjörg Sólrún áherslu á jafnréttismál sem eitt af lykilatriðum íslenskrar utanríkisstefnu og málefni þar sem styrkleiki Íslands á alþjóðavettvangi liggi. Einnig kynnti hún þróunarverkefni Íslendinga sem miða að því að bæta stöðu kvenna víðs vegar um heim.