Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, hefur sagt skilið við stjórnmál að svo stöddu og mun ekki bjóða sig fram í komandi kosningum.

Þetta kemur fram á vef RÚV en Ingibjörg Sólrún greindi frá þessu á fréttamannafundi sem haldinn var á heimili hennar síðdegis.

Fram kemur að  Ingibjörg segist hvorki hafa heilsu né þrek til að takast á við kosningabaráttu. Hún verði að viðurkenna að hún hafi verið veikari en hún hafi sjálf horfst í augu við. Nú verði hún að játa sig sigraða og hún verði nú að snúa sér að eigin endurhæfingu.

Þá kemur  jafnframt fram að Ingibjörg Sólrún mun láta af embætti formanns Samfylkingarinnar en tekur ekki afstöðu til þess hver taka eigi við embættinu.

Á vef RÚV kemur fram að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, var með Ingibjörgu á fundinum og kvaðst ekki munu gefa kost á sér í formannsembættið.

Boðað var til fréttamannafundarins á heimili Ingibjargar Sólrúnar með innan við klukkustundar fyrirvara.  Fyrir rúmri viku tilkynnti Ingibjörg að hún hefði ákveðið að halda áfram afskiptum af stjórnmálum.