Í setningarræðu sinni á flokkstjórnarfundi Samfylkingar í gær gerði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, fjármagnsmarkaði að umtalsefni sínu og sagði að þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að standa við bakið á fjármálastofnunum yrði haldið áfram.

„Burðarvirki hins reglulausa hnattræna fjármagnsmarkaðar var að leysast upp fyrir augliti heimsbyggðarinnar og markaðurinn gat ekki lengur staðið óstuddur. Hann „leiðrétti" sig ekki sjálfur heldur flanaði stjórnlaust að feigðarósi með vanmati áhættu og ofmati eigna. Almannavaldið, alþjóðastofnanir, ríkisstjórnir og Seðlabankar eru nú helstu bjargvættir fyrirtækja sem fyrir svo örskömmu voru sögð úrræðabetri en nokkur stjórnvöld gætu nokkurn tíma orðið,“ sagði Ingibjörg, sem telur að vegna þessa hljóti nýfrjálshyggjan að leggjast í endurskoðun.

Ingibjörg sagði einnig að frá þeirri afstöðu ríkisstjórnarinnar að standa við bakið á fjármálakerfinu yrði ekki hvikað. „Það er ekki gert af tillitsemi við eigendur eða stjórnendur fjármálastofnanna heldur til að freista þess að varðveita fjármálastöðugleikann því ef hann brestur er mikil vá fyrir dyrum hjá íslenskum almenningi,“ sagði Ingibjörg.

Til að vinna bug á hagstjórnarvanda landsins lagði Ingibjörg áherslu á að þeir sem byggja þetta land þurfi að taka höndum saman og hreinsa til í hugarfari, lífsstíl og neyslu. Mikilvægast sé að vinna bug á verðbólgunni og það kunni íslenska fjölskyldan.

„Töfralausnir á vandanum í hagstjórn á Íslandi eru ekki til. Það sem gildir er raunsætt mat, staðfesta, sanngirni og úthald. Það er ekkert hald í hávaða. Það er ekkert hald í brigslyrðum. Við sem byggjum þetta land þurfum að þétta raðirnar, taka höndum saman, senda áhættufíklana í meðferð og bjóða þá velkomna aftur í uppbygginguna þegar runnið hefur af þeim,“ sagði Ingibjörg einnig.

Ræða Ingibjargar Sólrúnar.