Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, sagði á Alþingi í dag að það væri mikilvægt að samstaða næðist meðal þingmanna allra flokka um breytingar á eftirlaunalögunum svonefndu. Það væri þó ekki forsenda þess að breytingar yrðu gerðar á lögunum í „réttlætisátt“ eins og hún orðaði það.

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, hóf umræðu um lögin í fyrirspurnartíma á Alþingi fyrr í dag. Hann sagði að enginn deildi um það að eftirlaunalögin, sem samþykkt voru á Alþingi 2003, hefðu verið sett í óþökk þjóðarinnar. Hann rifjaði upp yfirlýsingu Ingibjargar Sólrúnar í aðdraganda þingkosninganna vorið 2007 um að hún myndi beita sér fyrir því að lögunum yrði breytt. Hann spurði síðan út í efnd þeirrar yfirlýsingar.

Ingibjörg Sólrún svaraði því til að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna væri meðal annars kveðið á um endurskoðun laganna til að koma á meira samræmi í lífeyrismálum ráðamanna og almennings. Hún sagði að innan ríkisstjórnarinnar væri unnið að því að finna leiðir til að það gæti orðið að veruleika.