Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, sagði í ræðu sem hún flutti á fundi Samfylkingarinnar rétt í þessu að staðan væri alvarlegri í efnahagsmálum heldur en talið hefði verið í upphafi. Hún sagði að við myndum fara í gegnum erfiðan vetur og að næsta ár yrði erfitt.

Því væri það grundvallaratriði að jafnaðarmenn væru í ríkisstjórn á Íslandi "í þeirri orrahríð  sem er núna ," sagði hún. Jafnaðarmenn þyrftu, sagði hún, að móta þær leikreglur og þær stefnur og þá strauma sem myndu hafa áhrif á þróun samfélagins á næstu árum.

Fer í aðgerð í næstu viku

Ingibjörg Sólrún beygði af í upphafi fundar þegar hún fékk góðar kveðjur frá fundarmönnum, vegna veikinda hennar, og kröftugt lófaklapp. Hún sagði lauslega frá veikindum sínum í upphafi ræðu sinnar. Hún ætti smá aðgerð eftir í næstu viku, sem væri þó ekkert í líkingu við þá aðgerð sem hún hefði þegar farið í.

Hún kvaðst eiga von á því að koma fljótlega aftur til starfa og af fullum krafti í Samfylkingunni.

Þá þakkaði hún þeim Össuri Skarphéðinssyni iðnaðarráðherra og starfandi utanríkisráðherra, í hennar veikindum, Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra og Björgvini G. Sigurðssyni viðskiptaráðherra fyrir þeirra störf á síðustu vikum.

IMF lykilatriði

Fjölmennt var á fundi Samfylkingarinnar sem haldinn var á Grand Hótel í Reykjavík. Eftir ræður þeirra Ingibjargar Sólrúnar og Össurar var fjölmiðlum gert að yfirgefa staðinn. Þá fóru fram almennar umræður.

Í þeim kom m.a. fram í máli Ingibjargar Sólrúnar að lykilatriði væri að ná samkomulagi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Hún sagði enn fremur að væru menn að þvælast fyrir á strandstað þá réðu þeir hinir sömu ekki för - heldur ríkisstjórnin.

Vísaði hún þar til þeirra orða Jóns Baldvins Hannibalssonar í Sjónvarpinu fyrr í dag að Davíð Oddsson Seðlabankastjóri væri að þvælast fyrir á strandstað og trufla björgunaraðgerðir. Davíð ætti hins vegar, sagði Jón Baldvin, þátt í strandi þjóðarskútunnar.