Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar sagði í samtali við blaðamenn eftir ríkisstjórnarfund að aðstæðurnar í borginni verði ýmist harmleikur eða farsi.

„Þetta er uppvakningur,“ sagði Ingibjörg Sólrún. „Samkvæmt íslenskri þjóðtrú þá eru þeir verri heldur en draugurinn sjálfur.“

Ingibjörg sagði að hún hefði helst viljað sjá nýjan Tjarnarkvartett myndaðan og á vísar þar til samstarf Samfylkingar, Vinstri grænna, framsóknar og F-lista. Hún segir að sá meirihluti hafi verið góður og notið trausts.

Aðspurð um hvort hún telji engan farsa fólgin í slíku samstarfi sagði hún svo ekki vera.

„Það var bara traustur meirihluti með góðan stuðning á bakvið sig,“ sagði Ingibjörg.

„Það var ekki þannig að einhver örlítill flokkur hefði tögl og haldir í borginni eins og er núna og verið hefur.“

Ingibjörg sagði að aðstæður í borginni munu ekki hafa áhrif á stjórnarsamstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokk í ríkisstjórn. Hún sagði að flokkarnir myndu halda sínu striki í ríkisstjórn enda væri samstarfið traust og stöðugt.

Aðspurð um hvort nýmyndaður meirihluti í borginni segir Ingibjörg að hann muni reyna hvað hann getur að halda út kjörtímabilið.