Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, kallaði eftir bættu samráði alþjóðastofnana í Afganistan undir forystu SÞ fyrr í dag, á reglubundnum utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins í Brussel.

Hún kvaðst telja að órofatengsl væru á milli friðargæslu, góðrar stjórnsýslu og efnahagsuppbyggingar, og lagði þunga áherslu á mikilvægi heimamanna í öllu uppbyggingarstarfi.

Styður aðild nýrra ríkja að NATO

Ingibjörg Sólrún lýsti ennfremur á fundinum yfir jákvæðri afstöðu íslenskra stjórnvalda til þess að veita Króatíu, Albaníu og Makedóníu aðild að NATO, náist um það samstaða meðal aðildarríkja bandalagsins.

Ráðherra ítrekaði mikilvægi náinna samskipta við Georgíu og Úkraínu, og lýsti yfir stuðningi við beiðni Svartfjallalands og Bosníu-Hersegovínu um nánari tengsl við NATO. Ráðherra hvatti til þess að bæði NATO og ESB haldi góðum tengslum við Serbíu.