Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, segir í skriflegu svari sínu til þingmannanefndarinnar að eftir því sem mál séu krufin betur komi æ betur í ljós að fjármálakerfið var ekki aðeins ósjálfbært. Komið hafi fram sterkar vísbendingar um að eigendur og stjórnendur bankanni hafi með framferði sínu gerst sekir um alvarleg brot sem virðast hafa farið framhjá öllum þeim sem áttu að hafa eftirlit með starfseminni.

„Þegar mál eru skoðuð í því ljósi verður heldur ankannalegt að telja að ég hafi haft einhverja þá vitneskju eða afl sem þurfti til að forða fjármálakerfinu frá falli," skrifar Ingibjörg Sólrún.

Meirihluti þingmannanefndarinnar leggur til að Ingibjörgu verði stefnt fyrir Landsdómi ásamt Geir H. Haarde og Árna M. Mathiesen. Þingmenn Samfylkingarinnar vilja ekki að Björgvini G. Sigurðssyni verði stefnt. Hann hafi verið útilokaður frá ýmsum fundum og ákvörðunum.

Geir boðaði til fundanna

„Ég hef setið undir nokkru ámæli fyrir að hafa ekki boðað viðskiptaráðherra til fundanna í forsætisráðuneytinu með stjórn Seðlabankans. Um þetta er það að segja að umræddir fundir voru upplýsingafundir boðaðir af forsætisráðherra og það var á hans valdi og verksviði að ákveða hverjir ættu erindi á þá. Ég tók aldrei fram fyrir hendurnar á honum, hvorki í þessum tilvikum né endranær, og boðaði ekki fólk á fundi í forsætisráðuneytinu," skrifar Ingibjörg í svari sínu.