*

þriðjudagur, 26. janúar 2021
Fólk 14. janúar 2021 08:05

Ingibjörg stýrir hótelinu á Húsafelli

Nýr framkvæmdastjóri Húsafell Resort, Ingibjörg Hjartardóttir, hefur búið í Bretlandi, Sviss og Jamaíku.

Ritstjórn
Húsafell Resort, sem Ingibjörg Hjartardóttir, að neðan, stýrir rekur meðal annars Hótel Húsafell og Húsafell Giljaböð.
Haraldur Guðjónsson

Ingibjörg Hjartardóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdarstjóri Húsafell Resort og hóf störf 4 janúar. Staðan er ný og er hluti af áframhaldandi uppbyggingu á ferðaþjónustunni að Húsafelli.

Ingibjörg hefur yfir 20 ára alþjóðlega reynslu, bæði úr ferðaþjónustu og viðskiptalífinu almennt, en hún hefur búið og starfað í Bretlandi, í Sviss og á Jamaíku, auk þess að hafa sinnt verkefnum í Mið-Austurlöndum. Ingibjörg er eigandi og ráðgjafi hjá Hart Bridge Consulting þar sem hún hefur starfað síðustu tvö ár, en á árunum 2008 til 2013 rak hún þjónustufyrirtækið Harmaborg Limited.

Hún hefur meðal annars starfað fyrir BBC (Breska ríkisútvarpið), WATG Architects, Ace Hotels, Maybourne Hotel Group og Sandals Resorts International ásamt því að starfa sjálfstætt sem ráðgjafi fyrir minni fyrirtæki í hótel og veitingageiranum í Bretlandi, sem og hjá Hótel Óðinsvéum í Reykjavík á árunum 1991 til 1994.

Ingibjörg er með sveinspróf í framreiðslu, ACMA (Bresk löggilding í fjármálum fyrirtækja) frá Chartered Institute of Management Accountants (CIMA) og MBA í hótelstjórnun frá Ecole Hôtelière de Lausanne í Sviss.

Undir Húsafell Resort heyra Hótel Húsafell ehf. og Húsafell Giljaböð ehf. sem rekur afþreyingarmiðstöð, tjaldsvæði, sundlaug, náttúruböð og golfvöll. Mikil uppbygging hefur átt sér stað að Húsafelli undarfarin ár, þar á meðal eru ný náttúruböð og fjöldi göngu- og hjólaleiða um stórfenglega náttúru í nánd við hótelið.