Ingibjörn Pétursson hefur verið ráðinn forstöðumaður upplýsingatækni hjá Sjóvá, að því er kemur fram í fréttatilkynningu. Í tilkynningunni segir jafnframt að Ingibjörn hafi starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 2009, sem hugbúnaðarsérfræðingur og síðast sem þróunarstjóri. Hann hafi gegnt lykilhlutverki í stafrænni þróun og stefnumótun í upplýsingatækni hjá Sjóvá og hafi yfirgripsmikla þekkingu á öllum tækniinnviðum starfseminnar. Áður starfaði Ingibjörn meðal annars hjá Logica Danmark (CGI), Gagarín og Góðum lausnum.

Ingibjörn er með BSc gráðu í tölvunarfræði frá Háskólanum í Reykjavík og MSc gráðu í upplýsingatækni með áherslu á stjórnun og skipulag frá Háskólanum í Árósum.

Ingibjörn er giftur Helgu Björt Ingadóttur tannlækni og saman eiga þau þrjú börn.