Verktakafyrirtækið Ingileifur Jónsson ehf.  átti lægsta tilboð af þeim átta sem bárust í nýjan Tröllatunguveg eða um 662 milljónir króna sem er undir áætlun útboðs. Tröllatunguvegur tengir Dalasýslu og Strandasýslu betur en nú er og styttir leiðina milli Hólmavíkur og Reykjavíkur til muna, eða um 41 kílómeter að því er kemur fram á vef Skessuhornsins.

Þar kemur fram að tilboð í gerð nýs Tröllatunguvegar voru opnuð nýlega og hefjast vegaframkvæmdir á þessu ári. Nýr Tröllatunguvegur er áætlaður 24,5 km að lengd og liggur frá Vestfjarðavegi númer 60 í Geiradal um Gautsdal, Tröllatunguheiði og Arnkötludal að Djúpvegi númer 61 í Steingrímsfirði.

Verkinu skal að fullu lokið fyrir fyrsta september 2009.