Gert er ráð fyrir því að hefðbundnum bréfasendingum með pósti í einkarétti muni fækka um 17-20% á næstu fimm árum. Ingimundur Sigurpálsson, forstjóri Íslandspósts, segir í samtali við Morgunblaðið að einkaréttur á póstsendingum nemi um 40% af tekjum fyrirtækisins. Þróun bréfasendinga kemur því niður á Íslandspósti og hefur verið nauðsynlegt að grípa til ýmissa aðgerða til að mæta tekjutapinu. Þá er hugsanlegt að dreifingardögum verði fækkað og bréfakassar fluttir út að lóðarmörkum í sérbýli til að flýta fyrir dreifingu.

Ingimundur áætlar að tap hafi orðið á rekstri Íslandspósts á síðasta ári. Það liggur hins vegar ekki fyrir fyrr en ársreikningur Íslandspósts verður kynntur á aðalfundi fyrirtækisins síðar í mánuðinum.