Ingimundur Friðriksson, fyrrverandi Seðlabankastjóri, segir samstarfshóp um fjármálastöðugleika hafa verið mjög gagnlegan og gerir ekki athugasemdir við verkstjórn hans í aðdraganda hruns bankanna. Þetta er þvert á það sem Davíð Oddsson, sem var einn af þremur bankastjórum Seðlabankans með Ingimundi, sagði í gær. Davíð sagði m.a. í samtali við RÚV hópinn hafa skort verkstjórn. Ingimundur átti sæti í samráðshópnum.

Fréttavefur Morgunblaðsins hefur eftir Ingimundir að stjórnvöld hafi í aðdraganda hruns haft áhuga á því að minnka bankakerfið hér á landi. Þar á meðal aðgerðanna hafi falist að knýja bankana til að selja eignir. Á sínum tíma hefði verið metið að það gæti orðið þeim erfitt, jafnvel keyrt þá í þrot.

Fréttastofa Vísis segir Andra Árnason, verjanda Geirs, hafa spurt Ingimund að því hvort þeir sem sátu í samráðshópnum hafi haft mismunandi áhyggjur. Ingimundur hafi svarað því til, að erfitt hafi verið að segja til um það. Menn hafi einblínt á agaða vinnu, upplýsingasöfnun og mat á stöðu mála. Yfirleitt sé það þó þannig að þegar fjármálakreppa skelli á þá verði hún öðruvísi en búist hafi verið við. Hann bendir á að árið 2007 hafi menn búist við skammvinnri lægð á fjármálamörkuðum og margir verið bjartsýnir á að aðstæður myndur lagast í lok ársins eða í byrjun árs 2008.

Aðrir sem munu bera vitni fyrir dóminum í dag eru Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu sem jafnframt átti sæti í samráðashópnum, Bolli Þór Bollason, fyrrverani ráðuneytisstjóri í forsætisráðuneytinu, Áslaug Árnadóttir, sem var ráðuneytisstjóri í viðskiptaráðuneytinu í ráðherratíð Björgvins G. Sigurðssonar, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, og Jón Sigurðsson, fyrrverandi stjórnarformaður FME.