Ingimundur Friðriksson, bankastjóri Seðlabankans, segir að eftir á að hyggja hefði öruggasta leiðin til þess að koma í veg fyrir hrun bankanna e.t.v. verið sú að setja í upphafi þrengri skorður við starfsemi þeirra en fjármálafyrirtækja í öðrum löndum Evrópska efnahagssvæðisins.

Þannig telur Ingimundur að bankarnir íslensku hefðu ekki átt að fá að njóta þeirra réttinda sem EES-samingurinn fól m.a. í sér fyrir fjármálafyrirtæki. Þar með hefði Ísland ekki orðið fullgildur þátttakandi í innri markaði Evrópusambandsins.

„Ég læt öðrum eftir að svara því hvort stjórnmálalegur stuðningur hefði verið við hamlandi reglur á bankana á sínum tíma. Hins vegar blasir við að bankarnir nýttu kjöraðstæður til þess að vaxa hraðar en langtímaforsendur reyndust til eins og mál skipuðust," segir Ingimundur.

Þetta kemur fram í erindi sem stóð til að Ingimundur flytti á ráðstefnu í Finnlandi í dag en verður ekki. Erindið er gert opinbert á heimasíðu Seðlabankans.