Tyrkneska þingið ákvað í gær að flýta fyrirhuguðum þingkosningum sem fram áttu að fara í nóvember næstkomandi og munu kosningarnar verða haldnar 22. júlí. Þessi ákvörðun AKP flokks Erdogans forsætisráðherra, sem hefur meirihluta á þingi, kemur í kjölfar þess að stjórnlagadómstóll Tyrklands úrskurðaði á þriðjudaginn að fyrsta umferð forsetakosninganna hefði verið ógild.

Stjórnarandstæðingar á þinginu mótmæltu dagsetningu þingkosninganna þar sem þær færu fram á sama tíma og margir Tyrkir yrðu að heiman og hefðu því ekki möguleika á að greiða atkvæði.