Grétar Mar Jónsson, þingmaður Frjálslynda flokksins sakaði Geir H. Haarde, forsætisráðherra um landráð í morgun.

Þessi orð lét Grétar Mar falla um forsætisráðherrann í útvarpsþættinum Ísland í Bítið á Bylgjunni en Grétar Mar var þar viðmælandi Heimis Karlssonar ásamt Jóni Gunnarssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins.

Grétar Mar sagði að það væri eitt sem héti ábyrgð en annað sem væri landráð, hvort sem þau væru framin af gáleysi eða viljandi. Þar var Grétar Mar að vitna í skýrslu hagfræðinganna Willem Buiter og Anne Sibert, sem upprunalega var pöntuð af stjórnendum Landsbankans, þar sem fjallað var um dökkt útlit bæði íslenska bankakerfisins og íslenska efnahagslífsins í heild.

Hagfræðingarnir voru gestir Egils Helgasonar í Silfri Egils í Ríkissjónvarpinu í gær og vitnaði Grétar Mar í það viðtal. Upp komst um skýrsluna (sem gjarnan er kölluð „skýrslan sem var stungið undir stól") í október síðastliðnum þegar Buiter sagði frá henni í grein sinni í breska blaðinu Financial Times.

Grétar Mar sagði að með því að hunsa skýrsluna hefði forsætisráðherra og hugsanlega ríkisstjórnin öll gerst sek um landráð, í besta falli af gáleysi en mögulega viljandi.

Hægt er að hlusta á þáttin á vef Bylgjunnar.