Björn Valur Gíslason þingmaður Vinstri grænna og varaformaður  endurskoðunarnefndarinnar um fiskveiðistjórnun segir nýja skýrslu um skuldastöðu sjávarútvegsins sýna að ekki séu forsendur fyrir því að innkalla veiðiheimildir og leigja aftur. Þetta kemur fram í Fiskifréttum í dag.

Skýrsluna vann Háskólinn á Akureyri fyrir endurskoðunarnefndina en hún á að varpa ljósi á afleiðingar þess fyrir fjárhag sjávarútvegsfyrirtækja, ef aflaheimildir yrðu innkallaðar í áföngum til endurúthlutunar, eins og samstarfsyfirlýsing ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir.

Skýrsluhöfundar könnuðu m.a. skuldastöðu 20 kvótahæstu fyrirtækjanna. Niðurstaðan er sú að 15% fyrirtækjanna séu svo illa stödd að þeim verði ekki bjargað frá gjaldþroti. Þá séu 45% fyrirtækjanna í erfiðri stöðu og þurfi aðstoð. Þetta þýðir að 40% fyrirtækjanna eiga að geta spjarað sig.

,,Skuldastaða sjávarútvegsins almennt býður ekki upp á það að veiðiheimildir séu innkallaðar og þeim endurúthlutað gegn gjaldi,” sagði Björn Valur í samtali við Fiskifréttir. ,,Vissulega myndu skuldlítil fyrirtæki í góðum rekstri þola slíka endurúthlutun en staðreyndin er sú að innan við helmingur fyrirtækjanna er í þeirri stöðu. Það segir sig sjálft að hin fyrirtækin standa ekki undir frekari útgjöldum.”

Sjá nánar í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag.