Birgitta Jónsdóttir, Margrét Tryggvadóttir og Þór Saari, þingmenn Borgarahreyfingarinnar, ætla að taka sér tíma til að ákveða hvort og þá hvernig þeir sjái sér fært að starfa með Borgarahreyfingunni. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem þingmennirnir hafa gefið út vegna niðurstöðu landsfundar flokksins í gær.

Í yfirlýsingunni segir að á landsfundinum hafi verið samþykkt lög fyrir hreyfinguna sem gangi í berhögg við uppruna, tilgang og stefnu hennar. Borgarahreyfingunni hafi nú verið breytt í miðstýrðan stjórnmálaflokk, þvert á upprunalegar samþykktir og stefnuskrá.

Áður hafði fjórði þingmaðurinn, Þráinn Bertelsson, sagt sig úr þingflokki Borgarahreyfingarinnar og starfar hann nú utan þingflokka.