Nokkrir þingmenn með Valgerði Bjarnadóttur, Samfylkingu, í broddi fylkingar, kölluðu eftir afgreiðslu eftirlaunafrumvarpsins á Alþingi í dag. Í frumvarpinu er lagt til að alþingismenn, ráðherrar og hæstaréttardómarar njóti sömu lífeyriskjara og ríkisstarfsmenn, en búi ekki við sérstök forréttindi.

Valgerður mælti fyrir frumvarpinu á Alþingi á haustdögum og í kjölfarið fór það til umfjöllunar í allsherjarnefnd þingsins. Birgir Ármannsson, formaður allsherjarnefndar þingsins, upplýsti að sjö umsagnir um frumvarpið hefði borist nefndinni. Í einhverjum þeirra væri tekið undir efni frumvarpsins en í öðrum kæmu fram önnur sjónarmið.

Birgir sagði að frá því málið hefði verið sent til umsagnar hefði það ekki verið tekið á dagskrá  nefndarinnar. Hún hefði fengið 33 mál til umfjöllunar í vetur og stjórnarþingmál nytu forgangs.

Valgerður lýsti yfir vonbrigðum með að málið skyldi ekkert þokasta áfram.

Þingmenn úr Framsóknarflokknum, Frjálslynda flokknum og Vinstri grænum lýstu yfir stuðningi við frumvarpið í umræðunum á Alþingi í dag.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að endurskoða eigi eftirlaunakjör alþingismanna og ráðherra. Þar segir einnig að koma eigi á meira samræmi í lífeyrismálum ráðamanna og almennings.