Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í Silfri Egils í dag að mikilvægt væri að sú staða sem upp væri komin í borgarstjórnarflokki sjálfstæðismanna leystist sem fyrst. Hann er þar með annar þingmaður sjálfstæðismanna sem hefur um helgina tjáð sig um málefni borgarstjórnarhópsins.

Illugi sagði að það væri eðlilegt að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, oddviti sjálfstæðismanna í borginni, fengi tíma til að átta sig á stöðunni. „En sá tími getur ekki verið langur," sagði Illugi.

„Ég hefði gjarnan viljað sjá að þessu máli væri lokið," sagði Illugi enn frekar. Hann sagði að málið hefði skaðað Sjálfstæðisflokkinn til skamms tíma.

Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í Vikulokunum á Rás 2 í gær laugardag, að það jafngilti nánast vantrausti að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hefðu ekki lýst yfir óskoruðu trausti á Vilhjálm.

Bjarni sagði einnig að hann hefði viljað að búið væri að leysa málið nú þegar.