Varaformaður efnahagsdeildar Bandaríkjaþings Carolyn B. Maloney, fulltrúardeildarþingmaður frá New York fylki spurði í dag Ben Bernanke, bankastjóra Seðlabankans út í meintar árásir spákaupmanna á bæði Bear Stearns bankann og eins íslenskt efnahagslíf en eins og greint hefur verið frá fyrr í dag bar Bernanke vitni frammi fyrir þingnefndinni í dag.

Greint var frá spurningu Maloney í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins.

Maloney spurði Bernanke út í nýlegar fréttir af því að vogunarsjóðir hafi lagt mikið undir í spákaupmennsku með hlutabréf í Bear Stearns vikuna áður en bankinn „hrundi“ eins og hún orðaði það, og nú vegna frétta um að Íslendingar rannsaki nú vogunarsjóði sem gætu hafa reynt að lækka gengi gjaldmiðla þeirra.

Hún spurði Bernanke hvort hann teldi þörf á því að segja nýja reglugerð um eftirlit með vogunarsjóðum og ef svo væri; hvers konar eftirlit það ætti að vera.

Bernanke svaraði því til að ef satt reyndist væri þetta „brask með fjármálamarkaðinn“ og það væri hlutverk Fjármálaeftirlitsins að fylgjast með því.

„Það rannsakar áreiðanlega þessar staðhæfingar,“ sagði Bernanke. Hann sagðist ekki vera mótfallin eftirlit eða lögum væri fylgt eftir og sagði að fjárfestar ættu að njóta verndar í tengslum við vogunarsjóði.