Framsóknarþingmennirnir Magnús Stefánsson og Bjarni Harðarson hafa farið fram á að tafarlaust verði haldinn sameiginlegur fundur fjárlaganefndar og efnahags- og skattanefndar til þess að ræða þá stöðu sem nú er uppi í efnahagsmálum þjóðarinnar, ríkisfjármálum og horfum framundan.

Í greinargerð þessarar óskar þingmannanna segir að miklar viðsjár séu nú í efnahagsmálum þjóðarinnar. „Kemur þar margt til en mestu ræður þó hin alþjóðlega fjármálakreppa sem einkennir allan hinn vestræna heim."

Þingmennirnir segja að við þessar aðstæður veki aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar athygli.

„Seðlabanki Íslands hefur gripið til þeirra ráða sem hann hefur en einn og sér getur hann ekki stýrt efnahagsmálum þjóðarinnar, enda er hans hlutverk einkum stjórn peningamála ásamt því að stuðla að stöðugleika í verðlagsmálum. Nauðsynlegt er því að gætt sé samhljóms og samræmis í aðgerðum Seðlabanka og ríkisstjórnar en mikið hefur skort á að svo sé hina síðustu mánuði."