„Þetta er í línu við þær spár sem við vorum búin að sjá áður, frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Seðlabankanum og OECD hvað varðar hagvaxtarhorfur og helstu þætti; viðskiptahalla, verðbólgu, stýrivexti, gengisþróun og annað," segir Ingólfur Bender, forstöðumaður Greiningar Glitnis í samtali við Viðskiptablaðið.

Fjármálaráðuneytið birti endurskoðaða þjóðhagsspá í dag, þar sem fjallað er um framvindu og horfur helstu þátta efnahagsmála.

„Í stærstu dráttum er þetta í línu við það eins og við sjáum þróunina en óvissan er auðvitað gríðarleg. Það sem kemur manni helst á óvart þegar þessar fjórar spár eru bornar saman – sem eru opinberar spár um þróunina – er hvað þær eru keimlíkar. Miðað við hvað það er mikil óvissa hvað varðar uppbyggingu á bankakerfinu og ytra umhverfi hagkerfisins, til dæmis fjármálakreppuna á heimsvísu, ESB umsókn og aðild, evruupptöku, gengisþróun krónunnar, fleytingu hennar og alla þessa þætti er ótrúlegt hvað þetta eru í raun líkar spár.

Það er mjög erfitt að spá núna með vissu. Krónan er mjög ráðandi þáttur og við getum séð tvær útkomur. Annars vegar að stefna Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gangi eftir og það takist að koma á stöðugleika á gjaldeyrismarkaði, endurreisa bankakerfið og halda kostnaði við það innan viðráðanlegra marka. Þetta er sú útkoma sem fjármálaráðuneytið ásamt öðrum eru að teikna upp. Þeir eru að gefa sér að aðgerðaráætlun AGS gangi upp. En hættan í þessu í augnablikinu er hins vegar að sú leið verði meiri torfæra og að niðurstaðan verði svartari en verið er að spá.“