Ingólfur Árnason, stofandi Skagans 3X hefur látið af störfum sem forstjóri fyrirtækisins eftir ákvörðun meirihluta stjórnar félagsins. Starfsmönnum hátæknifyrirtæknifyrirtækisins var tilkynnt um þetta á fundi í morgun samkvæmt heimildum Viðskiptablaðisins. Guðjón Ólafsson hefur nú þegar tekið við sem forstjóri fyrirtækisins til bráðabirgða en til stendur að ráða nýjan forstjóra. Skagafréttir greindu fyrst frá .

Þýska fyrirtækjasamsteypan Baader eignaðist 60% hlut í Skaganum fyrr á árinu en félagið var að fullu í eigu Ingólfs og eiginkonu hans. Þau eiga áfram 40% hlut í félaginu. Skaginn 3X er með starfsstöðvar bæði á Akranesi og Ísafirði.

Guðjón var rekstrarstjóri Skagans 3X frá árinu 2017 og fram til mars á þessu ári en hann hefur sinnt ráðgjafastörfum fyrir Baader undanfarin misseri.

Hátæknifyrirtækið Skaginn 3X þróar nýjar lausnir í matvælaiðnaði með áherslu á sjávarútveg. Fyrirtækið sérhæfir sig í kæli- og vinnslutækni og framleiðir í dag íslaus kælikerfi, alsjálfvirk lestarkerfi fyrir fiskveiðiskip og verksmiðjur fyrir vinnslu á uppsjávarfiski.

Ekki náðist í Ingólf við vinnslu fréttarinnar.