Ingólfur Hauksson, fjármálastjóri Glitnis hf., tekur við starfi framkvæmdastjóra félagsins um næstu áramót. Ingólfur hefur verið fjármálastjóri Glitnis síðan í apríl 2009.

Ingólfur útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands árið 1986 og varð löggiltur endurskoðandi árið 1989.

Hann starfaði í fjárhagsdeild Eimskipafélags Íslands á árunum 2005 til 2009 og hafði yfirumsjón með reikningsskilum samstæðunnar. Ingólfur starfaði við endurskoðun á árunum 1986 til 2004, lengstum hjá KPMG þar sem hann var meðeigandi.

Lætur af störfum að eigin ósk

Kristján Óskarsson, framkvæmdastjóri Glitnis hf., lætur af störfum að eigin ósk um næstu áramót. Kristján var skipaður í skilanefnd Glitnis banka hf. í lok október 2008 en tók síðan við sem framkvæmdastjóri Glitnis í byrjun ágúst 2009 er hann lét af störfum í skilanefndinni.

„Á þessum tímamótum þegar slitameðferðinni er lokið og ný stjórn tekur við Glitni hef ég óskað eftir að láta af störfum þar sem ég er komin á þann stað í lífinu að vilja eiga meiri tíma fyrir mig og mína fölskyldu. Síðustu sjö ár hafa verið verðið krefjandi en mjög gefandi og þá sérstaklega að starfa með frábærum samstarfsmönnum“ segir Kristján Óskarsson.

Áður en Kristján hóf störf við slitameðferð Glitnis starfaði hann hjá Glitni banka (Íslandsbanka, Iðnaðarbankanum) í tæp 22 ár sem framkvæmdastjóri Glitnis fjármögnunar og síðar útibúasviðs. Þar áður starfaði hann sem fjármálastjóri Hampiðjunnar og sem deildarstjóri hjá Olíuverslun Íslands (Olís).