Landslög hafa fyrir hönd Ingólfs Helgasonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings banka, sent kæru til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna meintra brota gegn rétti hans til að velja sér verjanda.

Ingólfur sætir ákæru fyrir meinta markaðsmisnotkun og umboðssvik í starfi sínu sem forstjóri Kaupþings ásamt átta öðrum starfsmönnum bankans. Hæstiréttur Íslands staðfesti þann 25. febrúar sl. úrskurð héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis að afturkalla skipun Jóhannesar Bjarna Björnssonar, hæstaréttarlögmann, þar sem ekki væri útilokað að hann yrði kvaddur sem vitni í málinu.

Segir í tilkynningu Landslaga að íslenskir dómstólar hafi talið rétt að afturkalla skipun Jóhannesar á þessum grundvelli þrátt fyrir að ákæruvaldið hefði lýst því yfir að það hefði ekki í hyggju að leiða verjandann sem vitni í málinu, þó svo það hefði ekki útilokað það.

Ingólfur heldur því fram að íslenskir dómstólar hafi brotið gegn rétti hans sem sakaðs manns til að njóta varnar af hálfu verjanda að eigin vali, sem eigi sér stoð í ákvæðum Mannréttindasáttmála Evrópu.