Héraðsdómur Reykjavíkur felldi í dag úr gildi ákvörðun stjórnar Fjármálaeftirlitsins um að Ingólfur Guðmundsson væri óhæfur til að gegna starfi framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs verkfræðinga. Ingólfur kærði ákvörðunina og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi.

Í ákvörðun stjórnarinnar sagði að „Starfsferill Ingólfs Guðmundssonar, sem stjórnarformanns Íslenska lífeyrissjóðsins á árunum 2007 og 2008, er með þeim hætti að ekki er tryggt að hann geti gegnt stöðu sinni sem framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðs verkfræðinga á forsvaranlegan hátt. Samkvæmt því uppfyllir Ingólfur Guðmundsson ekki hæfisskilyrði 6. mgr. 31. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Með vísan til 4. mgr. 10. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, fer Fjármálaeftirlitið fram á að stjórn Lífeyrissjóðs verkfræðinga sjái til þess að Ingólfur Guðmundsson gegni ekki stöðu framkvæmdastjóra lífeyrissjóðsins. Verði ekki orðið við þeirri kröfu innan tveggja vikna frá dagsetningu þessarar ákvörðunar, mun Fjármálaeftirlitið víkja honum einhliða frá störfum.“

Ingólfur var ráðinn framkvæmdastjóri sjóðsins þann 10. febrúar 2010. Hann sat í stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins frá 1995 til 2009 og var formaður stjórnarinnar frá árinu 2000. Stjórn FME taldi að hann væri ekki hæfur til að gegna framkvæmdastjórastöðunni hjá Lífeyrissjóði verkfræðinga, meðal annars vegna þess að FME hafði vísað athugun sinni á fjárfestingum Íslenska lífeyrissjóðsins til sérstaks saksóknara, og gert alvarlegar athugasemdir við fjárfestingar.

Dómari féllst á að stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins hafi sýnt alvarlega vanrækslu við eftirlit með fjárfestingum sjóðsins. Það sé þó ekki nægilegt til að veita hinni „íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun“, þ.e. að ákveða Ingólf óhæfan, næga stoð. Enn fremur er það niðurstaða dómara að umfjöllun í ákvörðun stjórnar FME um ófullnægjanda upplýsingagjöf Ingólfs við hæfismat hafi ekki átt við rök að styðjast. Í niðurstöðum dómsins segir einnig að gagnrýni sem er að finna í ákvörðuninni, er laut að breytingum á fjárfestingarstefnu fyrir LíF LV árið 2007, hafi ekki verið réttmæt eða samrýmst fyrirmælum laga. Því sé það afstaða dómsins að FME hafi ekki verið unnt að byggja ákvörðun sína um óhæfi á þessum ávirðingum.