Ingólfur Helgason hefur verið ráðinn forstjóri yfir starfsemi Kaupþings banka á Íslandi. Hann mun heyra beint undir Hreiðar Má Sigurðsson, forstjóra Kaupþings banka hf., sem mun nú einbeita sér alfarið að rekstri Kaupþings banka samstæðunnar. Þá hefur verið ákveðið að ráða framkvæmdastjóra á samstæðugrundvelli á eftirtöldum sviðum bankans, Fjármálasviði, Áhættustýringu og Upplýsinga- og tæknisviði. Samhliða þessum breytingum hafa verið ráðnir fjórir nýir framkvæmdastjórar innan bankans á Íslandi.

Markmiðið með breytingunum er að einfalda og samræma skipulag á milli markaðssvæða og skerpa á ábyrgð og stjórnun innan Kaupþings banka samstæðunnar.

Framkvæmdastjóri Fjármálasviðs

Guðný Arna Sveindsóttir, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Fjármálasviðs Kaupþings banka samstæðunnar (Chief Financial Officer). Guðný Arna gegndi áður starfi framkvæmdastjóra Fjármálasviðs Kaupþings banka hf. á Íslandi.

Steingrímur Páll Kárason, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Áhættustýringar Kaupþings banka samstæðunnar (Chief Risk Officer). Steingrímur starfaði áður sem framkvæmdastjóri Áhættustýringar Kaupþings banka hf. á Íslandi.

Ásgrímur Skarphéðinsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Upplýsinga- og tæknisviðs Kaupþings banka samstæðunnar (Chief Information Officer). Ásgrímur hefur á undanförnum árum stýrt samræmingu tölvukerfa dótturfélaga bankans.

Ingvar Vilhjálmsson tekur við starfi framkvæmdastjóra Markaðsviðskipta á Íslandi, en því starfi gegndi Ingólfur Helgason áður. Ingvar var áður forstöðumaður hlutabréfamiðlunar.

Framkvæmdastjóri Eigin viðskipta á Íslandi

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson hefur verið ráðinn í nýja stöðu framkvæmdastjóra Eigin viðskipta á Íslandi, en Þorvaldur Lúðvík gegndi áður stöðu forstöðumanns Eigin viðskipta. Eigin viðskipti heyrðu áður undir Markaðsviðskipti en verða nú sérstakt svið sem heyrir beint undir forstjóra Kaupþings banka á Íslandi.

Eggert Teitsson, sem áður gegndi stöðu forstöðumanns á Fjármálasviði, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Fjármálasviðs Kaupþings banka á Íslandi.

Birgir Örn Arnarson, sem áður gegndi stöðu forstöðumanns rannsóknar- og þróunardeildar Áhættustýringar, hefur verið ráðinn Framkvæmdastjóri Áhættustýringar á Íslandi.