Ingólfur Helgason, fyrrverandi yfirmaður Kaupþings á Íslandi var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag til að greiða Arion banka 9,3 milljónir króna ásamt dráttarvöxtum vegna láns sem hann fékk hjá bankanum.

Málið snýst um að Ingólfur fékk 50 milljónir króna kúlulán í janúar 2006 til kaupa á hlutabréfum bankans. Samkvæmt úttekt PricewaterhouseCoopers kom þó í ljós að peningunum var ekki ráðstafað til hlutafjárkaupa. Ingólfur fékk peningana greidda inn á tvo reikninga í sinni eigu. Þrátt fyrir þetta lagði Ingólfur hlutabréf sem hann átti í bankanum til tryggingar lánsins. Upphæðin sem hann var dæmdur til að greiða samsvarar 10% af persónulegri ábyrgð hans af höfuðstól lánsins. Þegar lánið var gjaldfellt í ágúst árið 2010 stóð það í 88 milljónum króna. Áfallnir vextir námu rúmum 5,4 milljónum króna og nam skuld hans því öll samtals 93,4 milljónum króna.

Stjórn Kaupþings lýsti því svo yfir í september 2008 að persónulegar ábyrgðir starfsmanna vegna lána til hlutafjárkaupa hafi verið felldar niður. Í dóminum er tekið undir með málflutningi Arion banka um að þar sem láninu hafi ekki verið ráðstafað til hlutafjárkaupa gildi það ekki um lán Ingólfs. Hann var því dæmdur til að greiða þá upphæð sem Arion banki fór fram á.