Ingólfur Helgason, fyrrverandi forstjóri Kaupþings á Íslandi, þarf að greiða þrotabúi Kaupþings 1.078,2 milljónir króna, samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjavíkur . Var um að ræða riftunarmál sem Kaupþing höfðaði til riftunar á niðurfellingu persónulegrar ábyrgðar á lánum sem Ingólfur hafði fengið til hlutabréfakaupa á árunum 2005 til 2007.

Ingólfur Helgason, forstjóri Kaupþings á Íslandi.
Ingólfur Helgason, forstjóri Kaupþings á Íslandi.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Líkt og í fyrri sambærilegum málum rifti Héraðsdómur niðurfellingu persónulegu ábyrgðarinnar á þremur lánasamningum af fjórum, en ekki þeim fyrsta og stærsta, sem var frá árinu 2005. Var það vegna þess að ríflega helmingur lánsfjárhæðarinnar var ekki notaður til hlutabréfakaupa og ákvörðun Kaupþings frá haustinu 2008 sneri aðeins að niðurfellingu persónulegrar ábyrgðar starfsfólks Kaupþings á skuldum vegna slíkra kaupa. Persónuleg ábyrgð Ingólfs af ríflega helmingi lánsfjárhæðarinnar hafi verið óbreytt eftir sem áður.

„Af fyrirliggjandi gögnum verður þannig ekki annað ráðið en að persónuleg ábyrgð stefnda gagnvart fjárhæð, sem nam meira en helmingi heildarfjárhæðar lánsins, hafi staðið óhögguð þrátt fyrir [niðurfellinguna]. Samkvæmt þessu bar stefndi persónulega ábyrgð á fjárhæð sem svaraði eftir sem áður til 10% af heildarfjárhæð skuldarinnar,“ segir í dómnum.

Þá staðfesti dómurinn kyrrsetningu eigna Ingólfs í 20% hlut í Hvítsstöðum ehf. og eignarhluta hans í fasteignunum Fákahvarfi 12 í Kópavogi og Smiðshöfða 9 í Reykjavík. Málskostnaður var felldur niður.