Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað Ingþór Karl Eiríksson í embætti fjársýslustjóra til fimm ára frá 1. janúar 2016.

Ingþór Karl útskrifaðist með cand. oecon prófi af fjármálasviði viðskiptadeildar Háskóla Íslands árið 1998 og MSc gráðu í fjármálum fyrirtækja frá sama skóla árið 2012.

Ingþór hefur síðustu sjö ár starfað sem sérfræðingur á skrifstofu stjórnunar og umbóta í fjármála- og efnahagsráðuneyti. Þar hefur hann verið tengiliður ráðuneytisins við Fjársýslu ríkisins og hefur borið ábyrgð á helstu málaflokkum stofnunarinnar fyrir hönd ráðuneytisins. Áður hefur Ingþór Karl starfað sem fjármálastjóri SMI ehf., sem sérfræðingur í fjárhagsdeild hjá Íslandsbanka, sem sérfræðingur í fjárhagsdeild og deildarstjóri fjárreiðudeildar hjá Eimskipafélagi Íslands ehf. og deildarstjóri fjárhagsdeildar Fræðslumiðstöðvar Reykjavíkur.