Ingunn Agnes Kro, framkvæmdastjóri skrifstofu- og samskiptasviðs Skeljungs, hefur sagt starfi sínu lausu. Ingunn hefur starfað hjá Skeljungi frá árinu 2009, fyrst sem yfirlögfræðingur og síðar einnig sem ritari stjórnar og regluvörður.

Síðastliðin tvö ár hefur Ingunn gegnt starfi framkvæmdastjóra skrifstofu- og samskiptasviðs Skeljungs, þar sem hún hefur borið ábyrgð á samskiptum við helstu haghafa fyrirtækisins; markaðsmálum, samfélagsábyrgðarmálum, mannauðsmálum og lögfræðimálum, auk þess að hafa verið framkvæmdastjóri Íslenska vetnisfélagsins ehf.

Ingunn Agnes Kro , fráfarandi framkvæmdastjóri skrifstofu- og samskiptasviðs segist afar stolt af því sem frábært teymi hennar hjá félaginu hafi komið í verk. „Ég vil að lokum koma á framfæri þakklæti til þeirra fjölmörgu starfsmanna, stjórnenda, stjórnarmanna, viðskiptavina og samstarfsaðila sem mér auðnaðist að vinna með á þessum tíma,“ segir Ingunn Agnes og óskar þeim alls hins besta.

„Þegar ég kom til félagsins sá ég ekki fyrir að hér myndi ég verja svo drjúgum tíma sem ég gerði en ný verkefni og tækifæri leiddu til þess að tíminn flaug hjá. Mínum helstu verkefnum í starfi framkvæmdastjóra samskiptasviðs, um bætt samskipti við helstu haghafa; starfsfólkið, viðskiptavini, hluthafa og fjölmiðla hefur verið komið í fastar skorður og uppbyggingu vetnisstöðvanna er lokið.

Síðast en ekki síst hefur nýrri samfélagsábyrgðarstefnu verið ýtt úr vör, þar sem markmiðið er að minnka sem mest neikvætt fótspor fyrirtækisins með kolefnisjöfnun þess og möguleikanum fyrir viðskiptavini að kolefnisjafna akstur sinn á einfaldan hátt, í gegnum Votlendissjóðinn.“

Hendrik Egholm , forstjóri Skeljungs: „Ég vil þakka Ingunni fyrir vel unnin störf í þágu Skeljungs í gegnum árin og nú að síðustu fyrir að hafa leitt samskiptasvið félagsins með miklum sóma. Undir stjórn hennar hefur Skeljungur markað sér skýrari stefnu í samfélagsmálum og forgangsraðað í þágu umhverfismála,“ segir Hendrik.

„Félagið er í dag leiðandi í umhverfismálum og fyrst olíufélaga til þess að kolefnisjafna allan sinn rekstur og það sem meira er, boðið öllum sínum viðskiptavinum að gera slíkt hið sama. Ingunn er öflugur liðsmaður og kann ég henni bestu þakkir fyrir samvinnuna og óska henni alls hins besta.“