Ingunn Svala Leifsdóttir var kjörin í stjórn Kviku á hluthafafundi bankans í gær en hún var ein í framboði. Ingunn kemur inn í stjórnina fyrir Kristínu Friðgeirsdóttur sem sagði sig úr stjórninni eftir að hún var ráðin fjármálastjóri Sýnar í júní. Þá var Helga Jóhanna Oddsdóttir kjörin í varastjórn Kviku.

Ingunn Svala hefur setið í framkvæmdastjórn rekstrar Háskólans í Reykjavík frá árinu 2015 og ber ábyrgð á rekstri stoðsviða skólans og dótturfélaga hans. Hún situr í endurskoðunarnefnd VÍS og stjórnum Lífís (dótturfélags VÍS), Slippsins Akureyri og Parlogis.

Ingunn Svala var í eigin rekstri um tíma en hún rak bókhaldsstofu ásamt því að fást við kaup og sölu fasteigna. Hún starfaði fyrir skilanefnd Kaupþings og var framkvæmdastjóri fjármálasviðs bankans til ársins 2011. Einnig var hún rekstrarstjóri á fjárfestingabankasviði (e. global business controller) Kaupþings til ársins 2008. Ingunn Svala starfaði þar áður sem fjármálastjóri fyrir fjögur dótturfélög Actavis Group.

Helga Jóhanna var á síðasta ári ráðin sviðsstjóri rekstrarsviðs og staðgengill forstjóra hjá HS Veitum. Haustið 2011 stofnaði Helga stjórnendaþjálfunar- og ráðgjafarfyrirtækið Carpe Diem ehf. sem síðar sameinaði krafta sína Strategic Leadership ehf. sem Helga stýrði áður en hún flutti yfir til HS veitna. Hún starfaði einnig í framkvæmdastjórn Opinna kerfa árin 2008-2011 og var forstöðumaður starfasmannaþjónustu Reykjanesbæjar á árunum 2003-2008.

Stjórn Kviku:

  • Sigurður Hannesson, stjórnarformaður
  • Guðmundur Þórðarson, varaformaður stjórnar
  • Guðjón Reynisson
  • Helga Kristín Auðunsdóttir
  • Ingunn Svala Leifsdóttir

Varastjórn:

  • Sigurgeir Guðlaugsson
  • Helga Jóhanna Oddsdóttir