Inn fjárfesting tapaði rétt rúmum 4,7 milljónum króna á síðasta ári. Það er viðsnúningur frá árinu á undan þegar hagnaður félagsins nam rúmum 9,7 milljónum króna. Inn fjárfesting er í 100% eigu Ingunnar Wernersdóttur, systur þeirra Karls og Steingríms Wernerssona. Ef ekki hefði komið til rúmlega 28 milljóna króna leiðréttingar á gengislánum félagsins hefði tapið orðið um 32 milljónir króna.

Ingunn var sem kunnugt er hluthafi í Milestone með bræðrum sínum. Hún seldi þeim hlut sinn fyrir fimm milljarða króna árið 2005. Þeir bræður létu Milestone lána sér fyrir eignahlut Ingunnar.

Eignir Inn fjárfestingar námu 2,4 milljörðum króna í lok síðasta árs sem er 70 milljónum krónum minna en í lok árs 2010. Þar á meðal eru fjárfestingarverðbréf upp á 1.440.674.317 króna í þrotabúi Landsbankans í Lúxemborg. Skuldir á móti eignum námu jafnframt tæpum 2,4 milljörðum króna. Þar af námu langtímaskuldir við lánastofnanir 1.456.002.010 króna og skammtímaskuldir við lánastofnanir 924.949.245 krónum.

Eigið fé félags Ingunnar var um síðustu áramót jákvætt um 5.529.250 krónur.

Ágreiningur við Landsbankann í Lúxemborg

Tekið er fram í ársreikningnum að ágreiningur var um áramótin á milli félagsins og þrotabús Landsbankans í Lúxemborg um stöðu og uppgjör á annars vegar lánasamningi og lánalínu að fjárhæð 1.456.002.010 króna og yfirdráttarskuldar upp á 924.949.245 króna og hins vegar eignasafni Inn Fjárfestinga hjá bankanum upp á 1.440.674.317 króna. Tekið er fram að verðmæti eignanna var ekki reiknað upp miðað við verðmat eigna eða árslokagengi Seðlabankans um síðustu áramót heldur voru látnar standa óbreyttar á milli ára þar sem mikil óvissa er um þessa liði. Talið er fram að þessi staða hafi um áramótin síðustu valdið verulegri óvissu um fjárhagsstöðu félagsins. Sömu ábendingu var að finna í uppgjöri Inn fjárfestingar í hittifyrra.

Eftir því sem næst verður komist hefur ágreiningurinn verið leystur. Hver málalokin voru liggur hins vegar ekki fyrir.