Að sögn Lofts Ágústsonar, markaðsstjóra Ingvars Helgasonar hf. urðu sterkari viðbrögð en þeir höfðu reiknað með vegna tilboðs sem þeir settu fram í gær á eftirársbílum. Elstu bílarnir seldust því upp nokkuð hratt í gær. "Við bættum við svolítið af bílum í dag og erum að vinna úr því," sagði Loftur.

Loftur sagði að það væri eins og alltaf í svona átökum að sumt selst hraðar en annað og í þetta skiptið væri fólk spenntast fyrir Subaru. ,,Við eigum samt töluvert af bílum sem við höldum áfram að bjóða á verðinu sem við auglýstum í gær. Þetta eru t.d. pallbílar og jepplingar af ýmsum geðrum og einnig eitthvað af Nissan smábílum," sagði Loftur.

Í  fréttatilkynningu frá B&L og Ingvari Helgasyni sem send var út segir að framan af hafi þeir vonast til að fullyrðingar stjórnvalda um að gengi íslensku krónunnar væri of lágt skráð myndu standast og að það myndi styrkjast lítið eitt á fyrri hluta ársins sem hefði þýtt að verð á nýjum bílum hefði lækkað og salan e.t.v. glæðst. ,,Það hefur hins vegar ekki gengið eftir og í nýrri þjóðhagsspá er gert ráð fyrir að núverandi gengisskráning krónunnar haldist svo til óbreytt til 2011. Ef það gengur eftir munu aðstæður til sölu nýrra bíla ekki breytast umtalsvert á næstu árum. Við eigum því fáa kosti færa aðra en að lækka verulega verðið á eftirársbílum sem við eigum á lager og þannig freista þess að örva söluna og koma bílum sem til eru í landinu í notkun í stað þess að láta þá standa óhreyfða á hafnarbakkanum," segir í tilkynningunni.

Þetta eru bílar af flestum gerðum sem B&L og Ingvar Helgason flytja inn svo sem Subaru, Nissan, Hyundai, Land Rover, Isuzu, Renault og Opel.  Dæmi um lækkað verð er t.a.m. Subaru Legacy Sedan sjálfskiptur sem kostar fyrir lækkun 4.710.000 kr. en eftir lækkun 2.890.000 kr., Isuzu D-Max pick-up sjálfskiptur sem kostar fyrir lækkun 4.590.000 kr. en kostar eftir lækkun 2.990.000 kr. og Hyundai Santa Fe dísil sjálfskiptur sem kostar fyrir lækkun 6.640.000 kr. en kostar eftir lækkun 4.390.000 kr.

Það lætur nærri að verð bílanna sem lækka verði eins og þau voru áður en efnahagshrunið skall á og því er þetta kærkomið tækifæri fyrir þá sem vilja skipta um bíl að gera góð kaup sem ekki verða aftur í boði í bráð, segir í tilkynningu.