Samkeppniseftirlitið hefur ákveðið að ekki þurfi að aðhafast frekar vegna kaupa Eignarhaldsfélagsins Sævarhöfði ehf. á öllu hlutafé í Bifreiðum & landbúnaðarvélum í júlí síðast liðnum. Sævarhöfði ehf. er eigandi að bílaumboðinu Ingvari Helgasyni og þegar tilkynnt var um kaupin sl. haust taldi Samkeppniseftirlitið að kaupin fælu í sér samruna og taldi ástæðu til að rannsaka samkeppnisleg áhrif samrunans.

Starfsemi B&L og Ingvars Helgasonar ehf. er á sviði innflutnings og sölu á nýjum bifreiðum og endursölu notaðra bifreiða á Íslandi. Enn fremur stunda félögin rekstur þjónustuverkstæða fyrir seldar bifreiðar á ábyrgðartíma þeirra og sölu vara,  aukahluta og dekkja, og því ljóst að fyrirtækin starfa á sama markaði. Samkeppniseftirlitið kannaði því hvort samruninn hindraði virka samkeppni með því að til yrði markaðsráðandi staða eða að slík staða styrktist.

Niðurstaða eftirlitsins er sú að samlegðaráhrif samrunans gæti fyrst og fremst í starfsemi félaganna við sölu á nýjum og notuðum bílum. Gefa athuganir Samkeppniseftirlitsins ekki til kynna að samruninn muni hafa  skaðleg samkeppnisleg áhrif. Því telur stofnunin ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna kaupanna.