Ingvar Helgason ehf. hefur keypt fyrirtækið ALP ehf. sem rekur bílaleigurnar AVIS og Budget á Íslandi. Stofnað verður sérstakt eignarhaldsfélag um þessa fjárfestingu. Kaupverð er trúnaðarmál segir í fréttatilkynningu. Ráðgjafi seljanda var fyrirtækjaráðgjöf Glitnis. Kaupin eru gerð með fyrirvara um áreiðanleikakönnun og samþykki AVIS/Budget, eiganda vörumerkja AVIS og Budget, sem ALP ehf. er umboðsaðili fyrir.

ALP ehf. hefur verið í eigu fjárfesta undir forystu Hjálmars Péturssonar undanfarin þrjú ár en hann er jafnframt framkvæmdastjóri þess. Á þessum tíma hefur mikill vöxtur verið í starfsemi bílaleiganna en samanlagður bílafloti er nú tæplega 1.200 bílar.

Avis og Budget eru meðal þekktustu bílaleiga heims og reka um 6.300 leigustöðvar í 160 löndum.