Miðengi ehf. sem er dótturfélag Íslandsbanka, SP Fjármögnun hf. og Lýsing hf. hafa falið fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hf. að annast formlegt ferli sem lýtur að mögulegri sölu á 100% hlut í Eignarhaldsfélaginu BLIH ehf., móðurfélagi Ingvars Helgasonar ehf. og Bifreiða og landbúnaðarvéla ehf. (B&L).  Fjárhagslegri endurskipulagningu félaganna lauk fyrr á þessu ári þegar nýir hluthafar komu að þeim.

Söluferlið er opið öllum áhugasömum fjárfestum sem uppfylla skilyrði þess að geta talist fagfjárfestar samkvæmt lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, eða búa yfir fullnægjandi þekkingu og reynslu og geta sýnt fram á eiginfjárstöðu umfram 500 m.kr. Seljandi áskilur sér þó rétt til þess að takmarka aðgang að söluferlinu, m.a. í þeim tilvikum þegar fyrir hendi eru lagalegar takmarkanir á því að fjárfestir eignist ráðandi hlut í félaginu, svo sem vegna samkeppnisreglna.