Nýir eigendur, Erna Gísladóttir og Jón Þór Gunnarsson, sem um síðustu áramót tóku við rekstri bílaumboðsins Ingvars Helgasonar og B&L hafa frá og með deginum í dag breytt nafni félagsins í BL. Þar með líkur endanlega sameiningarferli þessara gamalgrónu bílafyrirtækja sem hvort um sig hófu starfsemi sína um og eftir miðja síðustu öld.

Fram kemur í tilkynningu að með nýja nafninu hefjist nýr kafli í sögu fyrirtækisins með nýjum og ferskum áherslum eftir samdráttarskeið undanfarinna ára.

Hjá félaginu starfa 128 manns auk fjölda samstarfs- og umboðsaðila um allt land en félagið er með söluumboð fyrir BMW, Hyundai, Isuzu, Land Rover, Nissan, Opel, Renault og Subaru.

Íslandsbanki, Landsbankinn og Lýsing tóku bæði bílaumboðin yfir eftir bankahrunið vegna skuldavanda þáverandi eigenda þeirra. Fyrirtækin voru sett saman í söluferli í fyrra og átti Erna Gísladóttir besta boðið.

Afinn stofnaði fyrirtækið

Erna starfaði lengi hjá B&L, nú BL. Hún er dóttir Gísla Guðmundssonar, fyrrverandi eiganda og stjórnarformanns B&L til margra ára. Það var reyndar afi hennar sem stofnaði fyrirtækið árið 1954. Hún hóf störf hjá fyrirtækinu árið 1987 og var forstjóri til ársins 2008. Hún stóð upp úr stólnum í kjölfar eigendaskipta þegar dótturfélag fjárfestingarfélagsins Sunds keypti allt hlutafé bílaumboðsins árið 2007.