Ingvar Már Gíslason hefur verið ráðinn markaðsstjóri Norðlenska matborðsins ehf. Hann tekur við starfinu 1. september næstkomandi og verður með aðsetur á aðalskrifstofu Norðlenska á Akureyri.

Ingvar Már er 27 ára að aldri, viðskiptafræðingur að mennt. Hann var ráðinn rekstrarstjóri kjötvinnslufyrirtækisins Nýja Bautabúrsins á Akureyri árið 2000 en það fyrirtæki sameinaðist Norðlenska matborðinu ehf. ári síðar. Síðan þá hefur Ingvar Már verið forstöðumarður tölvu- og upplýsingakerfis Norðlenska og útflutningsstjóri fyrirtækisins. Ingvar Már hefur starfsaðstöðu á aðalskrifstofu Norðlenska á Akureyri.

Norðlenska er sem kunnugt er eitt af stærstu fyrirtækum landsins á sviði kjötvinnslu. Fyrirækið framleiðir undir sterkum vörumerkjum sem neytendur þekkja, s.s. Goða, Gourmet kjöt, Naggar, KEA, Húsavíkur hangikjöt og Bautabúrið.

Ingvar Már segir verkefni markaðsstjóra m.a. að treysta þessi vörumerki enn frekar í sessi. "Okkar stærstu viðskiptavinir eru stærstu matvöruverslunarkeðjur landsins á borð við Kaupás, Samkaup og Baug ásamt fleiri verslunum. Að auki þjónustum við fjöldan allan af mötuneytum og veitingastöðum, sem og smærri viðskiptavini. Neytendur hafa látið vel af vörum Norðlenska, þar liggur okkar styrkur og við munum nýta okkur hann. Starfsfólk Norðlenska hefur yfir mikilli þekkingu að ráða á öllum sviðum, hvort sem um er að ræða framleiðslu, upplýsingatækni eða markaðsmál. Á þeim grunni munum við byggja upp enn öflugra fyrirtæki en að mínu mati eru framundan spennandi tímar á kjötmarkaði og við hjá Norðlenska munum ekki láta þau tækifæri sem eru fyrir hendi framhjá okkur fara," segir Ingvar Már í tilkynningu frá félaginu.

Unnusta Ingvars Más er Hilda Jana Gísladóttir og eiga þau tvær dætur.